SJÁLFVIRK TÍMATAKA ER Í HRAUNHLAUPINU. NOTAÐUR VERÐUR TÍMATÖKUBÚNAÐUR FRÁ MYLAPS SEM SAMANSTENDUR AF MOTTUM Í RÁSMARKI SEM HLAUPARAR FARA YFIR Í BYRJUN OG ENDA HLAUPS OG FLÖGUM.
Flöguna verður hver og einn hlaupari að festa við reimarnar á öðrum skónum sínum eða á ökklaband. Engin flaga = enginn tími.
Flagan geymir númer sem tengt er viðkomandi hlaupara og tímatakan hefst þegar farið er yfir motturnar í byrjun hlaups og lýkur þegar hlaupari fer yfir hana aftur í marki. Flögutími gefur því nákvæman persónulegan árangur hlaupara, óháð því hve aftarlega í hópnum hann var við ræsingu. Einnig er tekinn tími frá því að startskot ríður af sem kallast byssutími. Það er sá tími sem gildir til úrslita í hlaupinu eins og alþjóðlegar reglur um lögleg götuhlaup segja til um.
FLÖGUNNI SKILAÐ
Allir þátttakendur fá flöguna á leigu, sem er innifalin í þátttökugjaldinu. Að hlaupi loknu þarf hver og einn þátttakandi að losa flöguna af skónum og afhenda hana starfsmönnum hlaupsins sem staðsettir verða inni í Jarðböðunum við Mývatn. Flagan er virk í þetta eina hlaup. Hægt er að virkja flöguna aftur og þess vegna er verðgildi í henni fyrir hlauphaldara. ÞÁTTTAKENDUR ERU BEÐNIR AÐ VIRÐA SKILAÁKVÆÐI vegna umhverfissjónarmiða og kostnaðar og stuðla þannig að sanngjörnu þátttökugjaldi til framtíðar. Flagan ásamt hlaupanúmeri hefur verið skráð á nafn þátttakanda og gildir eingöngu fyrir þann einstakling. Frávik frá því ógildir tímatöku. Skili viðkomandi ekki flögunni til starfsmanna getur hann fengið bakreikning.